Þáttur 2, Hluti 4

Skugginn í vélinni: Að leita að mennskunni í stafrænu ræsi

60

Er gervigreind bara tækni eða endurspeglun á okkur sjálfum? Gestir þáttarins eru Dr. Roberto Buccola og Giorgio Baruchello heimspekingur. Við ræðum tengsl tækni, sálfræði og goðsagna og skoðum ólíka menningarheima Íslands og Sikileyjar sem myndlíkingu á hvernig við nálgumst hið ómeðvitaða.

Mynd sem ég tók í Palazzo Adriano, ekkert AI var notað við gerð hennar, nema líklegast eitthvað sjálfvirkt í símanum mínum....

Smelltu til að stækka

Gestir

Roberto Buccola

Sálfræðingur

Giorgio Baruchello

Professor

Þáttarnótur

Sagan hefst í raun á Sikiley síðastliðið sumar. Mér hlotnaðist sá heiður að halda erindi um gervigreind á ráðstefnu um framtíð hamingjunnar í bænum Palazzo Adriano. Umhverfið var eins og tekið beint úr kvikmynd og upplifunin var eftir því; súrrealísk og töfrum líkust. Þarna kynntist ég Dr. Roberto Buccola.

Vináttan barst svo yfir hafið þegar Roberto kom til Íslands til að kenna við Háskólann á Akureyri. Hann naut gestrisni foreldra minna meðan á dvölinni stóð og þarna var stofnað til dýrmætrar vináttu. Ekki síst þegar Olga dóttir hans kom í heimsókn, en þau gáfu svo mikið af sér og sýndu dætrum mínum einstaka hlýju.

Markmiðið með hlaðvarpinu hefur alltaf verið að brúa bil, ekki bara bil milli manns og vélar, heldur milli ólíkra hugmyndaheima. Þátturinn fór lengra með þessa könnun en mig hafði órað fyrir.

Roberto hóf samtalið á áhugaverðri myndlíkingu, þar sem hann bar saman hugarheimana tvo sem við höfðum upplifað:

„Ísland er sameiginleg dulvitund tengd við WiFi. Fjöll sem virðast í þungum þönkum og gufa sem stígur upp úr jörðinni eins og bæld sálflækja.“

Með þessum orðum opnaði hann dyr inn í heim þar sem gervigreind er ekki einungis röð af skipunum í kóða, heldur lifandi endurspeglun á okkar eigin sálarlífi. Hann lagði nútímagagnaver að jöfnu við gullgerðarlist miðalda; við beitum Python í stað latínu til að breyta hráum gögnum í eitthvað sem við vonum að verði „gull“ – án þess þó að skilja til fulls þá umbreytingu sem á sér stað.

Gegn hinu þögla og íhugula Íslandi tefldi Roberto fram hinni sólbökuðu og óreiðukenndu Sikiley – „hinni sameiginlegu dulvitund sem vaknar og pantar sér vín“. Þar hrópa goðsagnirnar í stað þess að lúra. Þessi tvískipting – hið rökrétta og hið ástríðufulla – er myndlíking fyrir manneskjuna sjálfa, og kannski líka fyrir gervigreindina sem við erum að skapa.

Giorgio Baruchello greip þennan ljóðræna þráð og jarðtengdi hann. Hann minnti okkur á að gervigreindin lærir af þeim stafrænu sporum sem við skiljum eftir okkur á Internetinu, sem hann kallaði „sameiginlegt ræsi“ sálarinnar. Þar safnast ekki bara okkar bestu hliðar, heldur einnig „skugginn“ – það sem er bælt og ómeðvitað. Hvað þýðir það að skapa „vitund“ úr slíkum efnivið?

„Hættan er ekki sú að vélar öðlist vitund. Hættan er sú að við gleymum að við höfum hana nú þegar.“

Þetta er ekki léttvæg spurning. Hún snertir kjarnann í því hvað „að temja“ tæknina þýðir. Það snýst ekki bara um að setja reglur, heldur að skilja hvaða hluta af okkur sjálfum við erum að magna upp. Eins og Roberto benti á, með vísun í James Hillman:

„Gervigreind er ekki bara verkfæri. Hún er daimon. Ný ásjóna anima mundi, heimssálarinnar, sem nú talar á tvíundarmáli í stað ljóðlistar.“

Samtalið skildi mig eftir með fleiri spurningar en svör, sem er ef til vill besti árangurinn. Ef við hættum að leita að einföldum tæknilegum lausnum og byrjum að spyrja dýpri spurninga um merkingu, tilgang og sálina, erum við þá kannski komin á rétta leið, eða erum við bara að ofhugsa þetta út í hið óendanlega?

Ég hvet þig til að gefa þér tíma til að hlusta. Þetta er ekki þáttur til að hlusta á í biðröðinni í Bónus. Þetta er samtal fyrir langa göngutúra eða kyrrláta stund þar sem rými er fyrir hugsun.

Hlusta á þáttinn

Tengdir þættir

Sjá alla þætti
Meistarinn og sveinninn. Unnið að endurbótum í desember 2025.
Hlaðvarp

Múrarameistarinn sem lifir það sem aðrir skrifa bækur um

Samtal við Smára Sigurðsson múrarameistara um handverk, ábyrgð og lífið áður en tölvuöldin tók við. Hvernig lærist Deep Work og stóísk heimspeki ekki úr bókum heldur með því að horfa á meistara vinna og handlanga verkfærin á réttum tíma.

19 dagar síðan
Stafurinn Æ
Hlaðvarp

Er íslenskan týnd í þýðingu? Tungumálið, tæknin og framtíðin.

Er íslenskan að týnast í þýðingu á stafrænum tímum? Í nýjasta þætti Temjum tæknina ræði ég við Lilju Dögg Jónsdóttir, framkvæmdastjóra Almannaróms. Við köfum ofan í stöðu tungumálsins á öld gervigreindar og ræðum hvernig við tryggjum að íslenskan verði gjaldgeng í tæknisamfélagi framtíðarinnar, en endi ekki sem fornminjar á safni.

24 dagar síðan
Milli kóða og kærleika: Hvaða færni skiptir máli í heimi gervigreindar?
Hlaðvarp

Milli kóða og kærleika: Hvaða færni skiptir máli í heimi gervigreindar?

Stundum líður mér eins og við séum öll farþegar í lest sem brunar áfram á ógnarhraða, án þess að við vitum nákvæmlega hvert hún stefnir. Þessi lest er gervigreindarbyltingin. Í hlaðvarpinu mínu, „Temjum tæknina,“ er þetta kjarninn í því sem ég reyni að skilja: Hvernig getum við, sem einstaklingar og samfélag, lært að stýra þessari lest – eða að minnsta kosti haft áhrif á ferðalagið – í stað þess að vera bara farþegar? Í nýjasta þættinum fékk ég til mín frábæran gest, Sigurð Óla frá Datalab, til að ræða einmitt þetta. Samtalið okkar varð fljótt að djúpri könnun á spennunni milli hins tæknilega og hins mannlega, milli skilvirkni og samkenndar.

u.þ.b. 2 mánuðir síðan