Múrarameistarinn sem lifir það sem aðrir skrifa bækur um
Samtal við Smára Sigurðsson múrarameistara um handverk, ábyrgð og lífið áður en tölvuöldin tók við. Hvernig lærist Deep Work og stóísk heimspeki ekki úr bókum heldur með því að horfa á meistara vinna og handlanga verkfærin á réttum tíma.

Smelltu til að stækka
Gestir
Smári Sigurðsson
Múrarameistari
Þáttarnótur
Við lifum á tímum þar sem við leitum logandi ljósi að leiðbeiningum um hvernig eigi að lifa góðu lífi í ofurtengdum heimi. Við lesum bækur eftir fræðimenn á borð við Cal Newport um mikilvægi „Deep Work“ – getuna til að sökkva sér í krefjandi verkefni án truflana. Við hlustum á hlaðvörp um stóíska heimspeki til að læra að takast á við mótlæti með ró og yfirvegun. Við reynum að finna flýtileiðir og „hakka“ lífið til að ná jafnvægi.
En stundum þurfum við ekki nýja sjálfshjálparbók. Stundum sitja svörin við eldhúsborðið beint á móti manni, í formi manneskju sem hefur einfaldlega lifað samkvæmt þessum kenningum alla sína ævi, án þess að hafa nokkurn tímann heyrt nöfnin á þeim.
Í síðasta þætti ársins settist ég niður með pabba mínum, Smára Sigurðssyni múrarameistara.
Pabbi er maður sem hefur lifað stærstan part ævinnar án Internets og snjallsíma. Þetta var þó hvorki einsdæmi né tilviljun – heldur meðvituð verkaskipting hjá foreldrum mínum. Mamma var alltaf í fararbroddi varðandi tækninýjungar, sá um bókhaldið og stafræna hlið rekstursins, á meðan pabbi einbeitti sér að handverkinu. Þetta samstarf gerði honum kleift að lifa því lífi sem hann vildi – með hendurnar í verkinu, ekki á lyklaborðinu.
Gula hrærivélin og „Deep Work“
Þegar ég hlustaði á hann lýsa starfsævi sinni, áttaði ég mig á því að hann er lifandi dæmi um „Deep Work“. Í áratugi hefur hann mætt til vinnu, tekið sér verkfæri í hönd og tekist á við verkefnin af fullri athygli.
Við ræddum í þættinum um gulu KitchenAid-hrærivél foreldra minna. Hún var keypt á útsölu fyrir hálfri öld vegna þess að enginn vildi þennan lit. Hún snýst enn og virkar fullkomlega. Á sama tíma sit ég uppi með síma sem er tæknilega heill en er orðinn „úreltur“ vegna hugbúnaðaruppfærslu. Þetta varpar ljósi á ólíka sýn kynslóðanna: Í hans heimi eru hlutir (og fólk) gerðir til að endast, ekki til að vera skipt út.
Þessi áþreifanlegi árangur – að geta gengið um göturnar og bent á ólíkustu staði, viðgerðir og breytingar sem bera handbragð hans – veitir lífsfyllingu sem sjaldan finnst í hröðum heimi tölvupósta og „læka“.
Að kunna að bjarga sér
Nálgun hans á lífið er sömuleiðis hreinræktaður hversdags-stóismi. Hann kenndi ekki með löngum fyrirlestrum heldur með fordæmi. Sem lærlingur lærði maður fyrst og fremst með augunum – að horfa á hann vinna og handlanga verkfærin á réttum tíma. Hann var aldrei yfirmaðurinn sem stóð yfir öðrum og skipaði fyrir verkum. Hann var sá sem mætti fyrstur og gekk fremstur í flokki.
Hann leyfði manni að gera mistök, jafnvel brjóta og bramla aðeins, til þess að maður lærði dýrmætustu lexíuna: Að kunna að bjarga sér. En traustið var alltaf til staðar. Ég hef aldrei efast um að þegar hann er á staðnum, þá er hann bestur. Ekki vegna þess að hann ber titilinn meistari, heldur vegna þess að hann er holdgervingur meistarans.
Þessi geta hans er jafn ljóslifandi í dag og hún var fyrir þrjátíu árum. Núna í desember 2025 tókum við forstofuna heima hjá mér í gegn, máluðum og lögðum flísar. Ég tók að mér að rúlla loftið en var varla búinn með fjórðung þegar axlirnar fóru að mótmæla. Þá tók hann einfaldlega við rúllunni og kláraði afganginn, hratt og örugglega, eins og það væri sjálfsagðasti hlutur í heimi. Þar tala handtökin sínu máli.
Múrinn sem við hlöðum
En það sem sat sterkast í mér eftir samtalið var myndlíking sem hann notaði þegar við ræddum hvernig mannleg samskipti hafa breyst. Hvernig hið óformlega kaffispjall er að hverfa því það þarf að panta tíma hjá fólki í gegnum stafræna aðstoðarmenn.
„Menn eru búnir að hlaða múr í kringum sig þannig að það er ekki hægt að koma að þeim og spjalla við þá bara um það sem liggur á hjarta.“
Við verðum að koma auga á ósýnilegu veggina sem við höfum reist. Í viðleitni okkar til að verða skilvirkari og tengdari með tækni, höfum við í kaldhæðni örlaganna hlaðið múrum sem einangra okkur frá einlægri, milliliðalausri nærveru. Þessar hugleiðingar voru einmitt til umræðu í fyrsta þætti seríu 2 þegar ég ræddi við Pétur Maack sálfræðing.
Þetta samtal var mér dýrmæt áminning. Við þurfum að temja tæknina, já, en við megum ekki gleyma grunninum. Við þurfum að kunna að meta handverkið, einbeitinguna og hina mannlegu tengingu sem krefst engrar nettengingar.
Pabbi er mín mesta fyrirmynd í lífinu. Að einhverju leyti var þetta samtal lærimeistara og sveins – sveins sem er að reyna sitt besta til að miðla þeim flóknu áskorunum sem örar tæknibreytingar færa okkur, með því að sækja í visku meistarans.
Takk, pabbi!
Lag þáttarins
Hraustir menn
Guðmundur Jónsson, Karlakór Reykjavíkur
Það er erfitt að hugsa sér betra tónverk til að lýsa starfsævi múrarameistarans.
Hlusta á þáttinn
Tengdir þættir
Sjá alla þætti
Er íslenskan týnd í þýðingu? Tungumálið, tæknin og framtíðin.
Er íslenskan að týnast í þýðingu á stafrænum tímum? Í nýjasta þætti Temjum tæknina ræði ég við Lilju Dögg Jónsdóttir, framkvæmdastjóra Almannaróms. Við köfum ofan í stöðu tungumálsins á öld gervigreindar og ræðum hvernig við tryggjum að íslenskan verði gjaldgeng í tæknisamfélagi framtíðarinnar, en endi ekki sem fornminjar á safni.

Skugginn í vélinni: Að leita að mennskunni í stafrænu ræsi
Er gervigreind bara tækni eða endurspeglun á okkur sjálfum? Gestir þáttarins eru Dr. Roberto Buccola og Giorgio Baruchello heimspekingur. Við ræðum tengsl tækni, sálfræði og goðsagna og skoðum ólíka menningarheima Íslands og Sikileyjar sem myndlíkingu á hvernig við nálgumst hið ómeðvitaða.

Milli kóða og kærleika: Hvaða færni skiptir máli í heimi gervigreindar?
Stundum líður mér eins og við séum öll farþegar í lest sem brunar áfram á ógnarhraða, án þess að við vitum nákvæmlega hvert hún stefnir. Þessi lest er gervigreindarbyltingin. Í hlaðvarpinu mínu, „Temjum tæknina,“ er þetta kjarninn í því sem ég reyni að skilja: Hvernig getum við, sem einstaklingar og samfélag, lært að stýra þessari lest – eða að minnsta kosti haft áhrif á ferðalagið – í stað þess að vera bara farþegar? Í nýjasta þættinum fékk ég til mín frábæran gest, Sigurð Óla frá Datalab, til að ræða einmitt þetta. Samtalið okkar varð fljótt að djúpri könnun á spennunni milli hins tæknilega og hins mannlega, milli skilvirkni og samkenndar.