Frá Skuggainnleiðingu til stefnu: Greining á kerfisáhættu á íslenskum vinnumarkaði

Magnús Smári Smárason
Deila:
Deila:

Nýleg alþjóðleg skýrsla frá KPMG og University of Melbourne (Trust, attitudes and use of artificial intelligence: A global study 2025) staðfestir varhugaverða þróun: 70% starfsmanna nota nú ókeypis, almenn gervigreindarverkfæri í vinnunni, á sama tíma og aðeins 41% segja að vinnuveitandi þeirra hafi nokkra stefnu um notkun þeirra.

Ný könnun frá Visku um notkun gervigreindar á íslenskum vinnumarkaði sýnir nú að þessi alþjóðlegi vandi er orðinn að íslenskum veruleika: 80% nota tæknina og 66% nota eigin aðganga.

Könnunin er mikilvæg, ekki vegna þess sem hún segir, heldur vegna þess sem hún afhjúpar með því að segja það ekki. Við fyrstu sýn sýnir hún árangurssögu. En ef við rýnum dýpra sjáum við ekki merki um heilbrigða þróun. Við sjáum einkenni stjórnlausrar skuggainnleiðingar sem skapar mælanlega kerfisáhættu.

Greiningin er grunnhyggin: Hún mælir „notkun“ en ekki „hæfni“

Talan „80% notkun“ er villandi því hún leggur að jöfnu tvö kerfisbundið ólík notkunarmynstur.

Raunveruleikinn er sá að starfsfólk skiptist nú þegar í tvo hópa:

Annars vegar er það sá ábyrgi og metnaðarfulli sem notar gervigreind til að margfalda afköst sín, auka sjálfstæði og bæta gæði vinnu sinnar. Þessi einstaklingur er ekki bara að auka skilvirkni – hann er að skapa raunverulegan árangur og ná fram verðmætaskapandi notkun.

Hins vegar er það hinn þreytti og örvæntingafulli, sem notar tæknina fyrst og fremst til að komast yfir verkefnahrúguna og ná að anda. Þessi einstaklingur, sem skortir djúpan skilning á takmörkunum tækninnar, skapar gríðarlega áhættu. Áhættan er ekki bara fólgin í gagnaöryggi – heldur í gæðum vinnunnar og í því sem ég kalla vitsmunalega skuld.

Raunveruleikinn er auðvitað flóknari og flestir starfsmenn lenda einhvers staðar á milli þessara tveggja póla. En þessi grunngreining afhjúpar kjarnaáhættuna sem könnunin mælir ekki.

Með hverju verkefni sem er leyst án djúps skilnings eða gagnrýninnar yfirferðar erum við að taka „lán“ á hæfni okkar til sjálfstæðrar hugsunar. Þessi skuld birtist sem mælanleg áhætta:

  • Minnkandi hæfni starfsmanna til að greina lúmskar villur í úttaki gervigreindar
  • Aukin einsleitni í hugmyndavinnu, þar sem allir byggja á sömu grunnlíkönum
  • Raunveruleg hætta á „hæfnishruni“, þar sem grunnfærni tapast

Og þar sem stefna, fræðsla og ábyrg innleiðing frá vinnuveitanda eru ekki til staðar svífur lykilspurningin í lausu lofti: Hver ber ábyrgðina á þessum villum? Starfsmaðurinn sem var að reyna að bjarga sér, eða stjórnandinn sem lét hann bjarga sér einn?

Þetta er fyrsta kerfisáhættan sem könnunin sér ekki: Hún greinir ekki á milli verðmætaskapandi hæfnisaukningar og áhættusamrar björgunaraðgerðar.

Greiningin er takmörkuð: Hún spyr ekki „Hver hagnast?“

Könnunin staðfestir að 66% starfsfólks nota eigin, persónulega gervigreindaraðganga. Í hinum fullkomna kapítalíska heimi hljóta atvinnurekendur að vera yfir sig ánægðir: starfsfólk er sjálft að greiða fyrir verkfæri sem auka framleiðni þess í vinnunni. Allur ávinningurinn rennur beint til fyrirtækisins, á meðan starfsmaðurinn ber allan kostnaðinn og áhættuna.

Hvernig er hægt að bera saman Gulla í markaðsdeildinni, sem hefur þróað 10 eigin verkfæri, greiðir fyrir þau sjálfur og hefur margfaldað afköst sín, við Alla í sömu deild sem notar bara fríu útgáfuna af ChatGPT endrum og eins? Þessi ójafna innleiðing er ekki bara óréttlát – hún skapar kerfisbundna áhættu:

  • Aukin starfsmannavelta og kulnun
  • Minnkandi tryggð og traust gagnvart stjórnendum
  • Tap á samkeppnisforskoti þegar hæfileikaríkasta fólkið flýr til vinnuveitenda sem nota tæknina til að bæta starfsumhverfið

Þetta er skólabókardæmi um það sem heimspekingurinn John McMurtry kallar að stefna að peningagildi, þar sem markmiðið er eingöngu að breyta peningum í meiri peninga. Spurningin sem Viska forðast er því þessi: Er þessi framleiðniaukning eingöngu að þjóna peningagildum, eða mun hún einnig þjóna lífsgildum – þar sem markmiðið er að bæta lífsgæði?

Á ávinningurinn að skila sér í hærri launum? Styttri vinnuviku? Meiri tíma fyrir sköpun? Eða á hún einfaldlega að hverfa inn í rekstrartölur fyrirtækja sem hafa ekki einu sinni tekið afstöðu til tækninnar?

Þetta er önnur kerfisáhættan: Könnunin mælir framleiðni en sleppir umræðunni um verðmætin.

Það er þó kannski alvarlegasta kerfisáhættan af þeim öllum – sú sem er svo djúpstæð að hún er ósýnileg í gögnunum – að þessi yfirborðskennda könnun skuli koma frá stéttarfélagi. Stofnun sem á að verja félagsmenn sína fyrir áhættu og arðráni hefur tekið sér hlutverk hlutlauss áhorfanda. Hún mælir og skráir þá þróun sem hún ætti að vera að stýra og skautar alveg framhjá þeirri staðreynd að félagsmenn hennar bera nú sjálfir kostnað og áhættu af vinnutækjum sínum.

Þetta er eins og verkalýðsfélag myndi láta það gagnrýnislaust að félagsmenn hennar mæti með eigin skúringargræjur, borgi fyrir þau sjálf, og vinni betur fyrir vinnustaðinn. Þetta er ekki bara værukærð. Þetta er hugmyndafræðileg uppgjöf.

Niðurstaða: Frá Skuggainnleiðingu til stefnumótandi ábyrgðar

Þessi könnun er ekki ástæða til að fagna. Hún er neyðarkall. Hún sýnir okkur vinnumarkað sem er að kljást við tæknibyltingu án stefnu, án þjálfunar og án skýrrar hugmyndar um hver tilgangurinn er.

Lausnin er ekki að banna. Lausnin er forysta:

Fjárfesta í færni: Kenna starfsfólki ekki bara hvernig á að nota tækin, heldur hvernig á að hugsa með þeim – gagnrýnið og ábyrgt. Greiða niður vitsmunalegu skuldina.

Veita aðgengi að öruggum verkfærum: Taka ábyrgð á gagnaöryggi með því að útvega örugga, fyrirtækjatengda aðganga. Eyða ábyrgðarþokunni.

Svara verðmætaspurningunni: Hefja gagnsæja umræðu um hvernig ávinningurinn skuli deilast og tryggja að lífsgildi séu höfð að leiðarljósi, ekki bara peningagildi.

Taka afstöðu: Stjórnendur og starfsfólk verða í sameiningu að taka valið: Ætlum við að nota þessa tækni til að hámarka útdrátt verðmæta, eða til að efla mannlega getu og vellíðan? Þetta er ekki tæknileg spurning, heldur siðferðisleg.

Ef við tökum ekki þessi skref – ef við höldum áfram að láta ábyrgðarþokuna ríkja – erum við ekki aðeins að bregðast skyldu okkar. Við erum þá að velja sjálfgefnu leiðina.

Gillespie, Nicole; Lockey, Steven; Ward, Tabi; Macdade, Alexandria; Hassed, Gerard (2025). Trust, attitudes and use of artificial intelligence: A global study 2025. The University of Melbourne. Report. https://doi.org/10.26188/28822919.v1

Hilmarsson, V. (2025, 11. nóvember). 80% sérfræðinga nota gervigreind í starfi og 67% segja hana auka afköst. Viska. https://www.viska.is/um-visku/i-frettir/80percent-serfraedinga-nota-gervigreind-i-starfi-en-vinnuveitendur-standa-langt-ad-baki